6.2.2008 | 01:03
Íslensku strútarnir
Samkvæmt viðtölum við starfsmenn Ráðgjafastofu heimilanna, hefur komið fram að skuldasöfnun og skuldbyrði ,,ungra" fjölskylda nemi ósjaldan nokkrum tugum milljóna króna. Þar sé aðsteðjandi vandi mikill - eins og gefur að skilja.
Sú umræða fylgir gjarnan í þessum fréttum, að engan skyldi undra - bankarnir hafi nánast troðið þessum fjármunum með góðu eða illu upp á þessar ungu fjölskyldur! Lánað 100% til íbúðakaupa, bílar, hús á hjólum, fellanleg eða ekki,snjósleðar og alls kyns tæki og tól sem eiga það sameiginlegt að vera færanleg, keypt fyrir lánsfé frá bönkum og fjármögnunarleigum, yfirdráttarheimildir á útsölum og kreditkortum laumað af óprúttnum starfsmönnum bankanna í alla vasa þessara ungu fjölskyldumeðlima! Þeir fá bara ekki rbarist á móti- alls staðar peningar!
Það er eins og verið sé að tala um heilalausar gufur, sem engan veginn gátu rönd við reist, gagnvart þessu ofbeldi bankanna ....... en er það kannski svo? - Bara gufur? Gufur sem þó er treystandi til þess að ala upp þau börn sem þau hafa átt?
Nei að sjálfsögðu ekki - en það segir kannski mikið um sjálfsmynd ungs fólks sem skuldar svo hressilega umfram greiðslugetu, þ.e. tugi milljóna. Sjálfsmynd fólks hefur kannski staðið svo veikum fótum, að það trúi að eigið vægi vaxi í réttu hlutfalli við fermetrafjölda, húsbúnað, hús á hjólum, ýmisskonar farartæki, merkjafatnað o.fl.
Fallvölt er sú sjálfsmynd ungrar manneskju sem er svo bundin við lánsfé - og sveiflur á verðbréfamarkaði - þær koma eins og hverjar aðrar haustlægðir.
Fallvölt er einnig sú sjálfsmynd, sem dregin er upp af unga fólkinu að það hafi ekki haft rænu á að afþakka alla þessa fjármuni frá bönkunum - eins og um algerlega viljalaus verkfæri fjármálaaflanna væri að ræða.
Ábyrgðin er að sjálfsögðu þeirra - ef þau eiga að fá að halda snefil af sjálfsvirðingu.
Það er svo okkar foreldranna - uppalenda/fjölskyldnanna að styrkja raunverulega sjálfsmynd barnanna okkar, svo þau geti varið sig fyrir ólíkindatólum eins og bönkunum - og viti alltaf sjálf fyrir hvað þau standa og á hversu traustum grunni lífsgæði þeirra standa - hvað sem ,,allir hinir" eru að gera.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.