26.3.2008 | 23:47
,,Meindýraplágan" í miðborginni
Auð, yfirgefin, opin hús verða gjarnan skjól dýra, sem ekki teljast til húsdýra og nefnast þau meindýr. Umfjöllun fjölmiðla um þessi hús hefur verið mikil síðustu dægur og er það vel og umfjöllun brýn. Það er örugglega von allra Reykvíkinga og Íslendinga að borgaryfirvöld einbeiti sér að því að framfylgja þeirri stefnu sem þau boðuðu í skipulagsmálum þegar nýr borgarstjórnarmeirihluti tók við - og ,,fari að láta verkin tala" - að stjórnsýslan á Íslandi - hjá 300 þús. manna þjóð, sé ekki svo torskilin og flókin að ,,engin" geti ráðið við ofangreint ástand.
Margt er hryggilegt við þessa stöðu mála. Ljót, auð, útkrotuð hús, brotnar rúður þar sem gluggarnir eru eins og tómar augntóttir. Þá stafar af þessum yfirgefnu opnu húsum mikil hætta, svo sem eldhætta - og brigður á almennum heilbrigðismálum.
Hins vegar get ég ekki orða bundist vegna ákveðins þáttar í umfjöllun fjölmiðla, stjórnsýslu og almennings - og það er hvernig talað er um ,,útigangsfólk" sem leitað hefur skjóls í þessum yfirgefnu húsum. Talað er um greni/bæli. Ein af ótal fréttum dagsins sagði m.a. ,,Búið er að loka grenjum á Vitastíg þar sem útigangsfólk hafði komið sér fyrir". Það hefur verið talað um ,,útigangsfólkið" eins og hver önnur meindýr.
Réttur þessara ,,meindýra" hefur ekki verið nefndur á nafn, þ.e. að það sé eitt af grunnþörfum mannsins að hafa húsaskjól. - Hvar það fólk hafist við svona almennt - hvað því standi til boða, hversu margar manneskjur búi við þann vanda að vera heimilislausar, almennt heilsufar á því fólki o.s.frv.
Þetta er jú ein hlið málsins og er að mér finnst ,,soralegust" í öllu þessu ástandi. Það er ljótt að hafa yfirgefin útkrotuð hús í nágrenninu, illa lyktandi og jafnvel hættulegt vegna eldhættu eða annarra hluta - það skemmir ímynd, getur lækkað íbúðaverð, og jafnvel orðið slysagildra -
En skömm okkar allra í þessu máli er viðhorf okkar til heimilislausra sem við gjarnan köllum útigangsfólk. Það hefur nánast verið fjallað um það eins og hverja aðra meindýraplágu eða faraldur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þakka kærlega fyrir þessa frábæru færslu. Hefði gjarnan vilja segja þetta sjálf en nú ert þú búin að því.
Jenný Anna Baldursdóttir, 26.3.2008 kl. 23:55
Amen það væri ekki hægt að orða þetta betur.
Ég einmitt hef verið að fylgjast með þessu í fréttunum og þetta er skammarlegt.
Hafrún Kr., 27.3.2008 kl. 00:31
Það hét öldum saman (eftir sem ég best veit) að vera á vergangi. Þjóðarskömm sem hefur tekið sig upp aftur. Góðærið er misskipt og mannleg þjáning fer kaupum og sölum. Fínu strákunum með kaupahéðnabindið finnst þetta auðvitað aumingjaskapur að láta sér detta í hug að vera hent út og verða gengilbeina í ræsinu. En að baki liggja flóknar mannlegar ástæður og oft löng röð erfiðleika sem erfitt er að skilja á þessum tímum þegar enginn hefur tíma. Samt er það svo skrýtið að stór hluti er á mörkum þess að verða heimilislaus og lítið þarf út af bregða til að svo verði. Sumum tekst að hanga lengi á sillunni.
Ólafur Þórðarson, 27.3.2008 kl. 01:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.