Bíldudalur.is - Uppskrift að frábæru ferðalagi

Má til með að benda á alveg frábæran stað heim að sækja.  Jú þar er um að ræða Arnarfjörð.

Þorpið Bíldudalur er umlukin fjöllum á þrjá vegu, þannig að þar er alveg ótrúleg veðursæld.  Í þessu litla þorpi má finna marga áhugaverða staði.

Fyrst vil ég nefna aldeilis frábæra lúxus-gistingu hjá Eagle-fjord á ótrúlega hagstæðu verði.  Þar er um íbúðagistingu að ræða - allt til alls og þægindi í fyrirrúmi og m.a.s. hljómgræjur og nuddtæki í sturtunni.

Safn Jóns Kr. Ólafssonar, ,,Melodiur minninganna" er á neðri hæð að heimili Jóns sjálfs.  Það var notaleg nostalgia sem sótti á mann við að fá sér sæti þar á safni og hlusta á Ellý Vilhjálms, Jón sjálfan sem og fleiri listamenn.  Þá eru þar mjög skemmtilegir munir.  Mér er til efs að slíkt safn fyrirfinnist víða í heiminum.

Þá er nýtt myndlistargallerý á Bíldudal - Gallerý Dynjandi.   Þar sáum við video-listaverk , innsetningu og myndlistarverk.  Þá eru bækur Muggs um Dimmalimm þar til sölu.

Hægt er að fara í sjóstöng og er það mikið ævintýri, ekki síst fyrir þá sök að ekki eru það einungis hefðbundin sjávardyr sem lifa í Arnarfirði, heldur er fjörðurinn einnig þekktur fyrir að hýsa skrýmsli nokkur.

Á leið út í Selárdal keyrir maður hjá Hvestu.  Ótrúlega fallegur staður og er skemmtilegast að koma þar á fjöru.  Maður veltir fyrir sér hvort sé okkur öllum verðmætara þar, olíuhreinsistöð rússneskra eigenda eða stórfengleg náttúran.

Safn Samúels Jónssonar í Selárdal skilur mann eftir með þá hugsun, hversu mikilvægt sé að fólk fái útrás fyrir sköpunargáfu sína, burt séð frá búsetu, áhorfi, menntun, fordómum annarra, eða bara hverju sem er.

Þá er gaman að rölta að Uppsölum þar sem Gísli nokkur bjó.  Gísli var merkilegur maður, sem fékkst við skógrækt, orti ljóð (hafa verið gefin út) o.m.fl.  Hann hafði hins vegar kosið að lifa og búa einn um langan tíma og varð þjóðþekktur á svipstundu eftir þátt Ómars Ragnarssonar, Stiklur, þar sem Ómar fjallaði um Gísla.  Það sögðu mér heimamenn að eftir þann þátt hefðu heilu rútufarmarnir af fólki komið þar vestur til þess að berja mann þennan augum - eins og um dýr hefði verið að ræða.

Í sumar ferðaðist ég um þessar slóðir sem leiðsögumaður með hóp og var þessi ferð algerlega ógleymanleg.  Hér er um algera menningar- og náttúruparadís að ræða að svo ógleymdri sundlauginni í Reykjafirðinum, sem stendur nánast í fjöruborði  þess sama fjarðar - einn lítill kofi til þess að rífa af sér spjarirnar og henda sér í tilhlýðilegan baðfatnað.

Við ferðalangarnir þökkum kærlega fyrir okkur 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakob Falur Kristinsson

Þetta get ég tekið undir af heilum hug enda bjó ég þarna í 53 ár og flutti þá hingað í Sandgerði.  Fór úr logni og blíðu og fegurð hingað í rokrassgat og ekkert fjall að sjá bara hraun og grjót.  Enda er ég að hugsa um að flytja vestur aftur.

Jakob Falur Kristinsson, 28.7.2008 kl. 15:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband