Ræða Guðmundar Andra á Austurvelli
Ræða Guðmundar Andra Thorssonar á Austurvelli í dag:
Við komum úr ólíkum áttum þjóðlífsins og eigum kannski ekki margt sameiginlegt og þurfum ekkert að eiga það en við sameinumst í takti. Við sameinumst í tilfinningu. Við sameinumst í æðaslætti. Við erum stödd hér á guði og gaddinum - atvinnulaust fólk sem veit ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér, háskólafólk sem horfir á grundvöll allra gilda gliðna, iðnaðarmenn sem fá ekki notið sinna handa, anarkistar, sósíalistar, markaðshyggjumenn, listamenn og vörubílstjórar, sjómenn, læknar, blaðamenn og kennarar, bálreiðar ömmur og hugstola afar, krakkar, mömmur, pabbar fólk fólk þar sem hver og einn kemur úr sinni átt þjóðlífsins og finnur hjarta sitt slá um stund hér á guði og gaddinum í takti við hjörtu samborgaranna í æðaslætti þúsundanna. Við erum þjóðin. Og við finnum til með ráðherrunum sem ganga í gegnum þrautir í lífi sínu, kvöl þeirra snertir okkur og við óskum þess að þeir beri gæfu til þess að sleppa takinu á valdataumunum. Við sendum þeim góða strauma og góðar óskir um góðan bata og óskum þess af öllu hjarta að þau átti sig á því að nú þurfa aðrir að stjórna landinu.
Við sameinumst í takti í búsáhaldabúgganum sem er einfaldur og margslunginn í senn. Það var hér á Austurvelli sem þjóðin fann taktinn. Og takturinn kom úr eldhúsunum, eins og allt sem er gott og nærandi og grundvallandi. Þegar allt var komið í hönk gáði fólkið í eldhússkápana til að sjá hvað væri nú eiginlega til og töfraði fram þennan takt út úr pottum sínum og pönnum. Hann er fjölbreyttur og tjáningarríkur hann tjáir flóknar tilfinningar sem flæða um okkur í þesssari martröð.
Hann tjáir fyrirlitningu okkar á þeim sem í því ofdrambi sem bara þekkingarleysið og heimskan geta skapað með samstilltu átaki hjá þeim sem fóru um Evrópu á einhvers konar blindafylleríi með okkar góða nafn og drógu það í svaðið með kaupæði á rekstri sem þeir höfðu ekki hundsvit á svo að nafn Íslands er nú tengt við græðgi og hálfvitagang og viðvaningslega glæpi.
Þessi taktur tjáir reiði okkar í garð þeirra stjórnvalda sem stóðu eins og stoltir foreldrar og fylgdust með þessu smánarlega fjöreggjakasti og neituðu að grípa inn í út af löngu afsönnuðum hagfræðikreddum um að réttlætið sé alltaf rangt, og ranglætið sé alltaf rétt.
Þessi taktur tjáir sorg okkar yfir áföllunum sem dynja yfir heimilin, samlíðan okkar og löngun til að takast í hendur hér á guði og gaddinum, hjálpast að, taka til, henda út drasli, rækta, byggja upp.
Því þessi taktur sem verður til þegar lamið er í potta og pönnur með sleifum og skeiðum tjáir ekki bara reiði okkar, örvæntingu og sorg, og hrópið Vanhæf ríkisstjórn! tjáir ekki bara niðurrif og andstyggð yfir því ábyrgðarleysi taktlausra valdhafa að sitja og sitja og sitja - og láta sitja og sitja og sitja þá sem ekki gátu og ekki kunnu og ekki geta og ekki kunna og munu ekki geta og munu ekki kunna í þessum takti og í þessu hrópi er ekki bara reiði, örvænting, beiskja og sorg heldur hvatning. Þar er er ekki bara nei heldur líka já. Þar er ekki bara höfnun heldur líka von.
Lengi höfum við skimað eftir andlitum hrunsins. Við höfum horft á vanhæfa ríkisstjórn sem nú er senn á förum. Við höfum horft á Seðlabankann þar sem enn situr... og situr... og situr... og situr sjálfur höfundur íslenska efnhagsundurins og glundursins, Davíð Oddsson og hefur sér til fulltingis og eftirlits bankaráð þar sem situr sjálfur talsmaður íslenska efnahagsundursins, sjálfur grillpinni íslensku útrásarinnar. Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Við höfum reynt að horfa á Fjármálaeftirlitið en komum aldrei auga á það. Við höfum horft á hina svokölluðu auðmenn sem á daginn kom að áttu aldrei rassgat heldur smugu um innviði íslensks samfélags eins og veggjatítlur og átu þá.
Gagntekin og hálflömuð höfum við mænt á ásjónur valdsins og vanhæfninnar og enn um hríð munum við þurfa að horfa á sum þeirra sem neita að standa upp og greiða þannig fyrir endurreisn Íslands. En aðeins um hríð. Við erum ekki bara þessir fáu einstaklingar sem halda dauðahaldi í sína stóla. Það eru hérna þrjú hundruð þúsund manns! Landið er fagurt og frítt og gjöfult og við rétt að fara að læra á það. Við eigum fullt af auðlindum og hugviti, eitthvað svolítið af menningarverðmætum sem enn hafa ekki verið étin upp af veggjatítlum auðvaldsins... við eigum menntun, áræði, sköpunarkraft og hvert annað. Þegar ásjónur hrunsins hafa farið sinn óhjákvæmilega veg, vonandi fyrr en síðar, þá þurfum við að beina sjónum okkar að því að finna andlit vonarinnar. Þau andlit finnum við með því að horfast í augu við okkur sjálf, horfa hvert á annað hlusta á taktinn, renna inn í tilfinninguna, skynja æðasláttinn og orku þúsundanna, við erum þjóðin við erum vonin.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þau bara sitja, sitja og sitja þessi vanhæfa stjórn, ræða Guðmundar var frábær alveg eins og hinna sem töluðu á mótmælafundinum. Burt með spillingarliðið, lifi eldhúsáhaldabyltingin.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 25.1.2009 kl. 01:39
(-:
Helga Kristjánsdóttir, 25.1.2009 kl. 01:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.