27.1.2009 | 12:59
Loksins, loksins - tekið á vinnubrögðum Baugsfyrirtækja!
Tveimur vikið úr stjórn Tals
Samkeppniseftirlitið hefur ákveðið að fulltrúar Teymis í stjórn Tals víki þegar í stað. Í staðinn verða tveir óháðir fulltrúar skipaðir í stjórnina af Samkeppniseftirlitinu. Þá eru nokkur ákvæði í samningi um aðgang Tals að farsímakerfi Vodafone dæmd ógild. Ákvörðunin gildir þar til í byrjun september. Hallgrímur Indriðason.
Síminn sendi erindi til Samkeppniseftirlitsins fimmta janúar þar sem fyrirtækið taldi samning um aðgengi Tals að farsímakerfi Vodafone ólöglegan. Vodafone er í eigu Teymis, sem einnig á tvo fulltrúa í stjórn Tals.
Forstjóri Tals hafði skömmu áður gert samning við Símann um aðgengi að þeirra farsímakerfi en fulltrúar Teymis í stjórn Tals töldu þann samning brot á samningi sem væri í gildi milli Tals og Vodafone.
Samkvæmt þeim samningi mátti Tal ekki ganga til samninga við annað símafyrirtæki meðan samningurinn við Vodafone tæki gildi auk þess sem Vodafone hafði rétt til að yfirtaka viðskiptasamninga Tals ef samningnum yrði rift eða sagt upp. Tveimur dögum eftir að erindi Símans barst gerði Samkeppniseftirlitið húsleit í höfuðstöðvum Teymis, Vodafone og Tals.
Samkeppniseftirlitið telur að samningurinn milli Tals og Vodafone hafi verið brot á þeim skilyrðum sem eftirlitið setti þegar net- og símafyrirtækin Hive og Sko voru sameinuð og Tal var stofnað. Skilyrðin voru meðal annars að full og óskorðuð samkeppni ríkti milli Tals og Vodafone. Fyrirtækin hafi hins vegar ákveðið sín á milli að Tal einbeitt sér frekar að yngri aldurshópum. Þá hafi samningurinn ekki verið borinn undir samkeppniseftirlitið.
Ákvörðunin felur í sér að fulltrúar Teymis í stjórn Tals, Þórdís Sigurðardóttir og Ólafur Þór Jóhannesson, víki úr stjórn Tals. Í staðinn skipar Samkeppniseftirlitið tvo óháða fulltrúa í stjórnina. Þá eru ákvæði í samningi Tals og Vodafone um yfirtöku viðskiptasamninga ef til uppsagnar kemur og bann við að semja við önnur símafyrirtæki felld úr gildi. Ákvörðunin gildir til 1. september.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.