Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
5.10.2008 | 14:20
Opinber tilmæli - allir standi saman á ögurstundu - en því er stjórnarandstaðan þá ekki með í ferlinu?
Opinber spurning til ríkisstjórnar Íslands
Til eru kvaddir útvaldir aðilar landsins, þ.á.m. hinn ágæti maður Aðalsteinn Baldursson, formaður Verkalýðsfélags Þingeyinga á Húsavík - bankastjórnendur, Samtök atvinnulífsins, fulltrúar stéttarfélaga, fulltrúar lífeyrissjóða o.fl. o.fl. o.fl.
Hvað er það sem allir þessir aðilar eru taldir færir um að gera til björgunar lífsafkomu okkar í bráð -
sem stjórnarandstaðan virðist vera ófær um að gera?
Hvernig líður barni sem kemst ekki hjá því að heyra daglega og sjá í hverjum einasta fjölmiðli landsins, ógnvænlegar fréttir af kreppu???
Börn eru viðkvæmar sálir og þurfa fyrst og síðast af öllu öryggi.
Það er þekkt fyrirbæri að börn fá oft óttaköst yfir ákveðnum hlutum, svo sem stríðsátökum spyrja sig og foreldra gjarnan hvort einhver hætta sé á að stríð skelli yfir okkur eða hvort stríðsátökin séu svo fjarri að þau muni ,,aldrei ná til okkar".
Þá hræðast þau gjarnan náttúruhamfarir o.fl. o.fl.
Nú komast þau ekki hjá því að upplifa ,,ógn" sem stendur býsna nærri þeim - ógn sem bíður við húshornið! Það er í öllum blöðum, útvarpi og sjónvarpi!!!
Við ræddum þessi mál ég og 15 ára sonur minn.
Ég benti honum á að við værum búin að vera ,,gráðugri" síðustu ár, en við höfum haft efni á. Það væru ekki eðlileg viðmið að hvert heimili ætti 2 - 3 bíla, ekki eðlilegt viðmið að fólk ætti frístundahús sem væru stærri og dýrari en meðal 3ja herb. íbúð, að húsgögn eða innréttingar sem væru eldri en 15 ára væri ruslahaugamatur o.s.frv. Þetta væri bara nauðsynlegur og eðlilegur viðsnúningur.
Við ræddum það óttalaust að nú yrði þyngra af greiða af lánum og aðföng dýrari, en lífið héldi áfram og jafn ánægjulegt og alltaf hefur verið að: ,,Kósa okkur á föstudags- og laugardagskvöldum", fara á tónleika, hlusta á tónlist, vera saman, fara í skóla og vinnu, hitta vini, spila, fara út í náttúruna, notalegt að fá okkur kakó og heimabakað af og til - Ekkert af þessu hverfur og það er það sem skiptir máli
28.7.2008 | 15:26
Bíldudalur.is - Uppskrift að frábæru ferðalagi
Má til með að benda á alveg frábæran stað heim að sækja. Jú þar er um að ræða Arnarfjörð.
Þorpið Bíldudalur er umlukin fjöllum á þrjá vegu, þannig að þar er alveg ótrúleg veðursæld. Í þessu litla þorpi má finna marga áhugaverða staði.
Fyrst vil ég nefna aldeilis frábæra lúxus-gistingu hjá Eagle-fjord á ótrúlega hagstæðu verði. Þar er um íbúðagistingu að ræða - allt til alls og þægindi í fyrirrúmi og m.a.s. hljómgræjur og nuddtæki í sturtunni.
Safn Jóns Kr. Ólafssonar, ,,Melodiur minninganna" er á neðri hæð að heimili Jóns sjálfs. Það var notaleg nostalgia sem sótti á mann við að fá sér sæti þar á safni og hlusta á Ellý Vilhjálms, Jón sjálfan sem og fleiri listamenn. Þá eru þar mjög skemmtilegir munir. Mér er til efs að slíkt safn fyrirfinnist víða í heiminum.
Þá er nýtt myndlistargallerý á Bíldudal - Gallerý Dynjandi. Þar sáum við video-listaverk , innsetningu og myndlistarverk. Þá eru bækur Muggs um Dimmalimm þar til sölu.
Hægt er að fara í sjóstöng og er það mikið ævintýri, ekki síst fyrir þá sök að ekki eru það einungis hefðbundin sjávardyr sem lifa í Arnarfirði, heldur er fjörðurinn einnig þekktur fyrir að hýsa skrýmsli nokkur.
Á leið út í Selárdal keyrir maður hjá Hvestu. Ótrúlega fallegur staður og er skemmtilegast að koma þar á fjöru. Maður veltir fyrir sér hvort sé okkur öllum verðmætara þar, olíuhreinsistöð rússneskra eigenda eða stórfengleg náttúran.
Safn Samúels Jónssonar í Selárdal skilur mann eftir með þá hugsun, hversu mikilvægt sé að fólk fái útrás fyrir sköpunargáfu sína, burt séð frá búsetu, áhorfi, menntun, fordómum annarra, eða bara hverju sem er.
Þá er gaman að rölta að Uppsölum þar sem Gísli nokkur bjó. Gísli var merkilegur maður, sem fékkst við skógrækt, orti ljóð (hafa verið gefin út) o.m.fl. Hann hafði hins vegar kosið að lifa og búa einn um langan tíma og varð þjóðþekktur á svipstundu eftir þátt Ómars Ragnarssonar, Stiklur, þar sem Ómar fjallaði um Gísla. Það sögðu mér heimamenn að eftir þann þátt hefðu heilu rútufarmarnir af fólki komið þar vestur til þess að berja mann þennan augum - eins og um dýr hefði verið að ræða.
Í sumar ferðaðist ég um þessar slóðir sem leiðsögumaður með hóp og var þessi ferð algerlega ógleymanleg. Hér er um algera menningar- og náttúruparadís að ræða að svo ógleymdri sundlauginni í Reykjafirðinum, sem stendur nánast í fjöruborði þess sama fjarðar - einn lítill kofi til þess að rífa af sér spjarirnar og henda sér í tilhlýðilegan baðfatnað.
Við ferðalangarnir þökkum kærlega fyrir okkur
30.6.2008 | 02:44
Verð á (aliminum) - áli - mun hríðfalla á næstu árum !! Örlög álbræðslu á Íslandi verða þau sömu og refa- og minnkaeldis
Hvernig dettur mönnum í hug að eftirspurn eftir áli eigi eftir að aukast ár frá ári?
Ál er framleitt úr súráli. Til þess að geta framleitt aluminum á Íslandi, þarf að flytja súrál með stórum flutningaskipum til landsins. Hér er það brætt og flutt út aftur með stórum flutningaskipum.
Olíubrennsla skipa veldur óhemu af útblæstri af koltvísýringi. Hvernig verður þá með losunarheimildir á þeim bæjunum? Hvað koma þær til með að kosta?
Hvað með olíukostnað sem fer í flutning á súráli alla leið til Íslands, til þess að bræða það og framleiða ál, og flytja síðan hráefnið sömu leið til baka?
Hvað með nýsmíði í flugiðnaði, þar sem flugfélög um allan heim standa frammi fyrir gjaldþroti vegna hás eldsneytisverðs sem sérfræðingar segja að muni aldrei fara niður fyrir 100 dollara tunnuna, þar verði jafnvægispunktur olíuverðs í framtíðinni? Ofan á hátt eldsneytisverð, munu losunarheimildir (mengunarkvóti), leggjast þungt á flugfélög, þar sem eldsneytisbrennsla þeirra veldur miklum útblæstri á koltvísýringi.
Hvaða áhrif mun eldsneytisverð í heiminum, sem og verð á losunarheimildum (mengunarkvóta) hafa á starfsemi álbræðslu hér á landi? Mun endalaust borga sig fyrir álfyrirtækin að sigla með súrál alla leið til Íslands, láta bræða það þar, og flytja síðan hráefnið sömu leið til baka?
Munu kannski standa hér auðar álverksmiðjur um allt land, rétt eins og refa- og minnkabúin sem spruttu hér upp eins og gorkúlur og bjarga áttu efnahagslífi landans, en dugðu skammt, þar sem markaðurinn hrundi á örskömmum tíma vegna breytinga á hugarfari fólks!!!!!
30.6.2008 | 02:16
Dofri Hermannsson, vara-borgarfulltrúi Samfylkingar segir orð Össurar Skarphéðinssonar marklaus!!!
Dofri Hermannsson, vara-borgarfulltrúi Samfylkingar og talsmaður Samfylkingar í umhverfismálum borgarstjórnarflokksins, segir ,,viljayfirlýsingu" iðnaðarráðherra um fyrirhugað álver á Bakka, algerlega marklausa gagnvart álversframkvæmdum þar.
Segir ,,viljayfirlýsinguna" eiga við samgöngubætur á milli Akureyrar og Húsavíkur!!!
Er iðnaðarráðherra að gera grín að Húsvíkingum?
Er ríkisstjórnin/iðnaðarráðherra að gefa út falskar ,,viljayfirlýsingar" um fyrirhugaða uppbyggingu álvera, til þess að bæta ímynd stjórnvalda vegna ,,meints" aðgerðarleysis þeirra í þeim stjórnlausa efnahagsvanda sem þjóðin glímir við?
Munu Íslendingar eiga von á fleiri ,,viljayfirlýsingum" frá iðnaðarráðherra um samgöngubætur í landinu? Jafnvel samgöngubætur sem þegar eru komnar inn á vegaáætlun? Málaflokkur sem heyrir undir samgönguráðuneyti!!
Hér er ekki verið að fjalla um hvort reisa eigi fleiri álver eða ekki (Höfundur á móti meiri frumframleiðslu til útflutnings), heldur orð og aðgerðir ríkisstjórnarinnar
Hvet ykkur til að lesa grein Dofra Hermannssonar ,,Viljayfirlýsing um hvað?" (sjá link hér að neðan.
http://dofri.blog.is/blog/dofri/entry/577857/#comments
Skrif Dofra Hermannssonar hér að neðan:
Viljayfirlýsing um hvað?
Það hefur ekki komið skýrt fram nema í fréttum Rúv hvað ríkisstjórnin er að leggja til málanna í þessari viljayfirlýsingu - að stuðla að bættum samgöngum milli Húsavíkur og Akureyrar. Nokkuð sem ríkur vilji er til að gera hvort sem er - enda hefur Samfylkingin sett fram þau sjónarmið að eina alvöru byggðastefnan er að bæta fjarskipti, samgöngur og aðgang að menntun.
Framlenging á þessu samkomulagi virðist því hafa harla litla þýðingu aðra en að þessir aðilar fái að halda áfram að kanna möguleikana á að reisa álver á Bakka með orku úr þeim jarðhitasvæðum sem búið var að gefa leyfi til rannsókna á.
27.6.2008 | 23:38
,,Æru-seilirinn" Hannes Hólmsteinn vill fleiri álver - og til hvers?
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, kallar eftir fleiri álverum á bloggsíðu sinni.
Röksemdir þær sem hann ber þar fram (býður ekki upp á athugasemdir þeirra sem skrif hans kunna að lesa) eru þær að bregðast þurfi við þeim atvinnumissi sem launamenn hafa verið að lenda í og er yfirvofandi. Hann er sjálfsagt að fjalla um t.d. um 400 starfsmenn eða fleiri í flugþjónustunni sem fengið hafa uppsagnarbréf, einhver hundruð í bankageiranum sem einnig hafa misst atvinnu sína og fleiri. - En skyldi Hannes álykta sem svo að þessi hátt í 1.000 manns úr banka- og fluggeiranum færu að starfa við byggingu álvera, eða stunda störf við álbræðslu?
Árni Johnsen er sömu skoðunar og flokksbróðir hans Hannes
21.5.2008 | 17:37
Íslenskir dónar - sýnið tilhlýðilega virðingu - Innheimtustofan Momentum
Innheimtustofan Momentum stendur fyrir auglýsingaherferð þessa dagana hjá Útvarpi allra landsmanna - RÚV.
Ein auglýsingin hljóðar svo: ,,Sýndu virðingu"
Auglýsing sem lesin var upp á RÚV í dag hljómar svo:
Kröfuaðilar leitið til Momentum, ykkur að kostnaðarlausu!
Sjúklingar, fatlaðir, barnmargar fjölskyldur, eða ungt fólk sem nú er farið að lenda í vanskilum með lán sín - vinsamlegast sýnið virðingu.
Þó skal áréttað hér að að starfsemi og starfsfólk Momentum í þessu tilfelli, hefur sitt lifibrauð á þessum dónum
3.4.2008 | 15:10
Frá hverjum fær Lögreglan tilskipun um að sekta atvinnubílstjóra í mótmæla-aðgerðum?
Er það ekki verksvið stöðumælavarða hjá Reykjavíkurborg að gefa út stöðusektir í borginni?
Er það þá verksvið Lögreglunnar eftir allt saman að sjá um sektartilkynningar? Getum við Reykvíkingar ekki sparað okkur þann kostnað sem fer í launagreiðslur til stöðumælavarða og láta þá sem eiga að sinna þessu lögbundna hlutverki sjá um verkin? Það er Lögreglu höfuðborgarsvæðisins?
Skv. fréttum allra fjölmiðla hefur Lögreglan sektað atvinnubílstjóra sem mótmæla fyrir utan fjármálaráðuneytið með því að þeyta lúðra, fyrir að leggja ólöglega?
Hvaðan kemur þessi tilskipun til Lögreglunnar?
Hvað gerir Lögreglan í málefnum miðborgarinnar? Hvað gerir lögreglan til að vernda líf og limi þeirra sem búa í miðborginni, vegna t.d. eldhættu sem er gríðarleg þar, í hinum opnu og yfirgefnu húsum?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.4.2008 | 14:28
Ekki mótmæla íslenskum stjórnvöldum - mótmælum frekar mannréttindabrotum Kínverja á Tíbetum!!
Mótmæli á Íslandi:
Íslenskir þegnar að mótmæla mannréttindabrotum erlendra stjórnvalda á þeirra eigin þegnum! Félagsmenn í Heimdalli, félags ungra sjálfstæðismanna, sendir ráðamönnum þjóðarinnar opinbert erindi, þar sem farið er fram á það við þau, að þau muni ekki verða við setningarathöfn Olympíuleikanna sem haldnir verða í Peking á árinu, til að mótmæla mannréttindabrotum Kínverja á Tíbetum! - Verðugt málefni -
Að mótmæla íslenskum stjórnvöldum!
Unga fólkið á Íslandi sem mótmælt hefur mengandi stóriðjuframkvæmdum - Handtekið !
Íslendingar á öllum aldri sem sættu sig t.d. ekki við og mótmæltu á pöllum Ráðhússins að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Sjálfstæðisflokkurinn í borgarstjórn seldu REI-Geysi Green Energi - einkarétt til að vinna arð af allri þróunarvinnu OR síðustu ára og standa aleinir að öllum útrásarverkum OR til næstu 20 ára. Almenningur treysti alls ekki þessum stjórnvöldum til þess að taka algerlega óbeðnir við stjórn borgarinnar aftur - og mótmælti hressilega á áheyrendapöllum Ráðhússins - Skríll !
Dómur Mannréttindadómstóls hefur nú þegar útskurðað að íslensk stjórnvöld brjóti á þegnum landsins með því að koma í veg fyrir atvinnuréttindi fólks - með því að leyfa aðeins ,,fáum" að nýta fiskveiðiauðlindina og sem mega svo selja veiðiréttinn, fiskinn sem verður í sjónum t.d. eftir 23 mánuði. - Þeir sem mótmæla eru nöldrarar !
Atvinnubílstjórar sem geta vart orðið haldið úti starfsemi sinni, vegna þess hve eldsneytisverð er hátt (hlutfallslega miklu hærra á Íslandi en víða annars staðar), auk þess sem ríkið í sínu góðæri hefur ekki látið í té, hvíldarstöðupláss, þrátt fyrir að slíkt sé í evróputilskipun - enda jafn nauðsynlegt að atvinnubílstjórar hvílist - eins og aðrir stjórendur farartækja, flugstjórar, vélstjórar í flugvélum o.fl., skipstjórnarmenn o.s.frv. Þeir atvinnubílstjórar sem mótmæla þessari skerðingu á atvinnufrelsi sínu - vega að lífi fólks ! (Lögreglan)
Borgarstjórn Reykjavíkur getur hins vegar átölulaust af Lögreglunnar hálfu, lagt líf og limi þeirra Reykvíkinga sem búa í miðborginni, í hættu hvern einasta dag ársins, vegna eldhættu þeirrar sem skapast hefur og mun skapast í auðum og yfirgefnum húsum miðborgarinnar. Það er í lagi !
Fræðimenn og fagfólk sem gerir athugasemdir við beina aðför fjármálaráðherra að helsta vörslumanni lýðræðis á Íslandi, Umboðsmanni Alþingis, heftir málfrelsi ráðherra !
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ótrúlega líflegur og skemmtilegur þáttur í kvöld. Sammála með útlistun Múmín-álfanna sem heimsbókmenntir......