Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
28.3.2008 | 14:04
Úrræði vegna vanskilnings, starfsmanns okkar, Þórhalls Gunnarssonar, eins lykilstjórnenda RÚV ohf, sem er fyrirtæki í eigu okkar almennings
Þar sem einhver misskilnings eða hreinlega vanþekkingar virðist gæta hjá Þórhalli Gunnarssyni um löglega stjórnsýslu, upplýsingalög, réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, vegna birtingar upplýsinga um rekstur þessa fyrirtækis okkar, - launakostnaðar starfsmanna - vil ég koma eftirfarandi ábendingu áleiðis um lausn málsins:
Að útvarpsstjóri axli þá ábyrgð sem hann fær greidd laun fyrir og er ráðinn til: Fari að lögum, og birti allar upplýsingar um laun:
Dagskrárstjóra Sjónvarps - án þess að nafngreina starfsmann
Dagskrárstjóra Útvarps - án þess að nafngreina starfsmann
Síðan legg ég til að Menntamálaráðherra, leggi til sérstakt fjármagn til fræðslumála til stjórnenda RÚV - þar sem stjórnendur stofnunarinnar virðast ekki hafa skilning á eðli ríkisrekins fyrirtækis.
27.3.2008 | 17:17
Kjarkmesta fólk Íslands........
Listasafn Akureyrar stendur fyrir myndlistarsýningu sem heitir Bæ bæ Ísland.
Myndlistarsýning þessi er svo pólitísk að engin og takið eftir engin fékkst til að styrkja þessa listsýningu sem er algerlega einstakt.
Viðfangsefnið er spillt stjórnvöld, græðgisvæðing, neysluhyggja o.fl. Málþing verður um viðfangsefnið þar sem leikir og lærðir setja fram hugmyndir og kenningar.
Bók kemur út um sýninguna, viðfangsefni, listamenn o.fl.
Hvet alla til að kíkja inn á heimasíðu Listasafns Akureyrar www.listasafn.akureyri.is
26.3.2008 | 23:47
,,Meindýraplágan" í miðborginni
Auð, yfirgefin, opin hús verða gjarnan skjól dýra, sem ekki teljast til húsdýra og nefnast þau meindýr. Umfjöllun fjölmiðla um þessi hús hefur verið mikil síðustu dægur og er það vel og umfjöllun brýn. Það er örugglega von allra Reykvíkinga og Íslendinga að borgaryfirvöld einbeiti sér að því að framfylgja þeirri stefnu sem þau boðuðu í skipulagsmálum þegar nýr borgarstjórnarmeirihluti tók við - og ,,fari að láta verkin tala" - að stjórnsýslan á Íslandi - hjá 300 þús. manna þjóð, sé ekki svo torskilin og flókin að ,,engin" geti ráðið við ofangreint ástand.
Margt er hryggilegt við þessa stöðu mála. Ljót, auð, útkrotuð hús, brotnar rúður þar sem gluggarnir eru eins og tómar augntóttir. Þá stafar af þessum yfirgefnu opnu húsum mikil hætta, svo sem eldhætta - og brigður á almennum heilbrigðismálum.
Hins vegar get ég ekki orða bundist vegna ákveðins þáttar í umfjöllun fjölmiðla, stjórnsýslu og almennings - og það er hvernig talað er um ,,útigangsfólk" sem leitað hefur skjóls í þessum yfirgefnu húsum. Talað er um greni/bæli. Ein af ótal fréttum dagsins sagði m.a. ,,Búið er að loka grenjum á Vitastíg þar sem útigangsfólk hafði komið sér fyrir". Það hefur verið talað um ,,útigangsfólkið" eins og hver önnur meindýr.
Réttur þessara ,,meindýra" hefur ekki verið nefndur á nafn, þ.e. að það sé eitt af grunnþörfum mannsins að hafa húsaskjól. - Hvar það fólk hafist við svona almennt - hvað því standi til boða, hversu margar manneskjur búi við þann vanda að vera heimilislausar, almennt heilsufar á því fólki o.s.frv.
Þetta er jú ein hlið málsins og er að mér finnst ,,soralegust" í öllu þessu ástandi. Það er ljótt að hafa yfirgefin útkrotuð hús í nágrenninu, illa lyktandi og jafnvel hættulegt vegna eldhættu eða annarra hluta - það skemmir ímynd, getur lækkað íbúðaverð, og jafnvel orðið slysagildra -
En skömm okkar allra í þessu máli er viðhorf okkar til heimilislausra sem við gjarnan köllum útigangsfólk. Það hefur nánast verið fjallað um það eins og hverja aðra meindýraplágu eða faraldur.
6.3.2008 | 13:06
Hvort greiðirðu reikningana þína fyrir gjalddaga, á gjalddaga eða eftir gjalddaga? Ertu kannski búin að vera vanskilapappakassi síðan þú varðst fjárráða?
Vissir þú að bankastofnanir og fyrirtæki þeirra eru sólgnir í þessar upplýsingar?
Vissir þú að Lánstraust - nú Credidinfo Ísland - fyrirtækið sem gefur út vanskilaskrá, hefur farið þess á leit við Persónuvernd að fá að skrá niður alla greiðsluhegðun hvers Íslendings frá því hann verður fjárráða og þar til yfir lýkur? Þar á að taka saman þær upplýsingar um þig þ.e. hvort þú hafir alla jafna greitt reikninga þína fyrir gjalddaga, á gjalddaga eða síðar. Hversu líklegt sé að þú sért eða verðir vanskilamaður!!! Þær upplýsingar eru síðan varan sem fyrirtækið selur öðrum fyrirtækjum eða lánastofnunum.
Vissir þú að Kaupthing banki var búin að tilkynna kreditkortahöfum sínum að viðskipti neysla - sem greidd væri með slíku korti, væri tekin saman í sérstakan gagnagrunn sem síðan yrði nýttur sem upplýsingabanki um neysluvenjur okkar! Hvaða hagsmunir skyldu vera þar að baki?
Fyrirtækið hætti reyndar við eftir mótmæli korthafa og baðst afsökunar á þessum áformum sínum.
Vissir þú að Intrum á Íslandi býður upp á einhverjum vefsíðum, að fólk skrái niður greiðsluhegðan sína? - Er það ekki innheimtufyrirtæki? Bent skal á að eignatengsl eru á milli Lánstrausts og Intrum á Íslandi.
Hvers vegna var Intrum í Noregi svipt starfsleyfi?
Hvort skiptir meira máli: Viðskiptahagsmunir eins fyrirtækis eða hagsmunir okkar almennings?
Koma þessi mál okkur eitthvað við?
Er þessi pistill minn kannski stormur í vatnsglasi?
6.2.2008 | 01:03
Íslensku strútarnir
Samkvæmt viðtölum við starfsmenn Ráðgjafastofu heimilanna, hefur komið fram að skuldasöfnun og skuldbyrði ,,ungra" fjölskylda nemi ósjaldan nokkrum tugum milljóna króna. Þar sé aðsteðjandi vandi mikill - eins og gefur að skilja.
Sú umræða fylgir gjarnan í þessum fréttum, að engan skyldi undra - bankarnir hafi nánast troðið þessum fjármunum með góðu eða illu upp á þessar ungu fjölskyldur! Lánað 100% til íbúðakaupa, bílar, hús á hjólum, fellanleg eða ekki,snjósleðar og alls kyns tæki og tól sem eiga það sameiginlegt að vera færanleg, keypt fyrir lánsfé frá bönkum og fjármögnunarleigum, yfirdráttarheimildir á útsölum og kreditkortum laumað af óprúttnum starfsmönnum bankanna í alla vasa þessara ungu fjölskyldumeðlima! Þeir fá bara ekki rbarist á móti- alls staðar peningar!
Það er eins og verið sé að tala um heilalausar gufur, sem engan veginn gátu rönd við reist, gagnvart þessu ofbeldi bankanna ....... en er það kannski svo? - Bara gufur? Gufur sem þó er treystandi til þess að ala upp þau börn sem þau hafa átt?
Nei að sjálfsögðu ekki - en það segir kannski mikið um sjálfsmynd ungs fólks sem skuldar svo hressilega umfram greiðslugetu, þ.e. tugi milljóna. Sjálfsmynd fólks hefur kannski staðið svo veikum fótum, að það trúi að eigið vægi vaxi í réttu hlutfalli við fermetrafjölda, húsbúnað, hús á hjólum, ýmisskonar farartæki, merkjafatnað o.fl.
Fallvölt er sú sjálfsmynd ungrar manneskju sem er svo bundin við lánsfé - og sveiflur á verðbréfamarkaði - þær koma eins og hverjar aðrar haustlægðir.
Fallvölt er einnig sú sjálfsmynd, sem dregin er upp af unga fólkinu að það hafi ekki haft rænu á að afþakka alla þessa fjármuni frá bönkunum - eins og um algerlega viljalaus verkfæri fjármálaaflanna væri að ræða.
Ábyrgðin er að sjálfsögðu þeirra - ef þau eiga að fá að halda snefil af sjálfsvirðingu.
Það er svo okkar foreldranna - uppalenda/fjölskyldnanna að styrkja raunverulega sjálfsmynd barnanna okkar, svo þau geti varið sig fyrir ólíkindatólum eins og bönkunum - og viti alltaf sjálf fyrir hvað þau standa og á hversu traustum grunni lífsgæði þeirra standa - hvað sem ,,allir hinir" eru að gera.
30.1.2008 | 18:53
Sólgleraugun á nefið og ekið um með skvísustút á munni
Ótrúlega fallegur dagur í dag. Heilu söngsveitirnar sitjandi á greinum trjánna í garðinum. Þvílíkir tónleikar og þvílíkt líf. Þurfti að sinna erindum niðri í bæ í dag. Veit ekki hvort það var fegurð dagsins, sólin og birtan sem krafðist þess að sólgleraugu sætu á nefi, svo hún hreinlega blindaði mann ekki - eða hreinlega að fuglasöngurinn hafi valdið slíkum léttleika sálarinnar að ......... Það voru svo ótrúlega margir myndarlegir menn á vappi um miðbæinn í dag.
Kallaði ósjálfrátt fram skvísustútinn
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.1.2008 | 18:39
Hjónin að skilja .... og reita hár hvors annars og slást um fiskveiðikvótann fyrir dómstólum!
Er ekki lífríkið í sjónum talið vera almannaeign? Með löggjöf um kaup og sölu á fiskveiðikvóta, fylgdi m.a. framsalsréttur. Nú erfist hann á milli kynslóða! Er veðsetningarhæfur og veldur hamförum í fjölskyldum, þegar fara á að skipta upp eignum.
Af hverju er nýtingarréttur almanna-auðlinda ekki leigður út?
Þá væri ekki til framsalsréttur - og þá væri það hlutverk opinberra aðila að leigja kvóta út og þar með væri hægt að stýra því miðað við atvinnustarfsemi í landinu.
29.1.2008 | 00:31
Dómsmálaráðherra leitar liðsinnis Öryrkjabandalagsins vegna eineltis gagnvart Ólafi F.
Úr grein Björns Bjarnasonar 27.01.2008 - Ofsi vegna nýs meirihluta
sjá: bjorn.is
6. Hvar er Öryrkjabandalagið, þegar veikindi eru höfð til marks um að einstaklingur sé ekki fær um að sinna því starfi, sem sá hinn sami hefur tekið að sér? Hefur Öryrkjabandalagið engar athugasemdir fram að færa við fordómana og eineltið?
28.1.2008 | 02:15
Dómsmálaráðherra kallar eftir áliti Öryrkjabandalagsins varðandi umfjöllun um krankleika borgarstjóra!!!!
Ég verð bara segja að ég er slegin eftir lestur á grein ráðherra dóms og laga...........
Hvet alla - og ég segi og skrifa alla til að lesa eftirfarandi grein ........ og þetta er dómsmálaráðherrann okkar, sá sem á að standa vörð um öryggi okkar borgaranna .......
Greinin heitir: Ofsi vegna nýs meirihlutahttp://bjorn.is/blog/bjorn/entry/426802
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.1.2008 | 01:00
Illmenni gagnrýna
90% Reykvíkinga hugnaðist ekki stefnuskrá F-listans í síðustu borgarstjórnarkosningum.
Skv. marg-ítrekuðum yfirlýsingum Ólafs F. Magnússonar, hinum nýja borgarstjóra, eru um 70% af nýrri málefnaskrá borgarstjórnar, málefni F-lista.
Út frá þessum staðreyndum verður borgarstjóri að búa yfir þeirri dómgreind að viðbúið sé að einhverjir af þessum 90% hljóti að gagnrýna og tjá sig um málin. Hann verður hins vegar að skilja að málefnalega gagnrýni og persónulega gagnrýni.
Það er óviðunandi að mega ekki gagnrýna þessa stöðu, án þess að verða illmenni.